141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að leggja til arðgreiðslur frá opinberum stofnunum, þar á meðal arðgreiðslur frá Orkubúi Vestfjarða og Rarik. Þessar samfélagsveitur, sem eru að gera sitt besta í að veita rafmagni á sem hagkvæmustum verðum og reyna að jafna þann mismun sem er á dreifikostnaði á rafmagni vítt og breitt um landið, eru nú krafnar um arð til ríkisins. Að mínu mati er það ekki í samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnvart landsbyggðinni.

Ég harma þetta og tel að það hefði verið nær að við hefðum komið með myndarlegar fjárhæðir til að jafna þann mikla mun sem er í raforkukostnaði landsmanna eftir búsetu. Það að ætla að fara að heimta arð af þessum þjónustustofnunum, Orkubúi Vestfjarða og Rarik, finnst mér alveg fráleitt og get ekki stutt þá tekjuöflun.