141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:52]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Það hefur verið svo síðustu fjögur ár að gerð hefur verið aðhaldskrafa á hverju ári í mismunandi prósentum. Reyndin hefur verið sú að aðhaldskrafan hefur komið mjög misjafnt niður og hefur ríkisstjórnin ekki verið sjálfri sér samkvæm. Það gildir mjög um aðalskrifstofur ráðuneyta, forsætisráðuneytið o.fl. Við flytjum hér táknrænar tillögur í þá veru um lækkun á fjárveitingum til forsætisráðuneytisins um 30 millj. kr.

Reyndin er sú að verkefnum forsætisráðuneytisins hefur fækkað, þau hafa verið vistuð annars staðar í gegnum árin. Engu að síður hefur ráðuneytið þanist út. Það er ekki í góðu samræmi við aðhaldskröfurnar. Eftir því sem nær kemur endanum, ráðuneytunum, eru aðhaldskröfurnar minni en meiri þegar fjær dregur, m.a. á Jafnréttisstofu.