141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrir skemmstu var ríkisstjórnin mjög viðkvæm fyrir því þegar sagt var að menn ættu að standa við orð sín, orð skulu standa. Í þessu máli var því lofað að niðurstaða nefndar sem innanríkisráðherra setti á fót mundi verða til leiðbeiningar um það hvernig ætti að bregðast við. Það liggur fyrir að niðurskurður á sóknargjöldum er umfram það sem hefur verið í almennum rekstri hjá ríkinu.

Nú hefur nefndin skilað af sér og meðal þess sem hún segir í nefndaráliti sínu er að sóknargjöldin hafi einkenni félagsgjalda. Það er eitthvað verulega bogið við það þegar ríkið tekur að sér innheimtu félagsgjalda en skilar þeim síðan ekki til félagsins. Þetta hljóta allir að sjá. Hér er eingöngu um að ræða lágmark samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar og geti stjórnarliðar ekki fallist á að styðja þessa tillögu (Forseti hringir.) þá standa ekki þau loforð sem áður voru gefin.