141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:18]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér erum við að gera tillögu um að hækka framlag til framkvæmda á Alþingisreit um 20 millj. kr. sem ætlað er til að færa Skjaldbreið í sem upprunalegasta mynd. Áætlaður kostnaður við þennan 1. áfanga við endurreisn hússins er 50 millj. kr. og mun Alþingi leggja til mótframlag af fjárheimildum Alþingis svo ljúka megi þessum verkþætti.

Húsið Skjaldbreið, sem er í eigu og umsjá Alþingis, stendur við Kirkjustræti og er mikilvægur hluti þeirrar ásýndar og götumyndar sem var og verið er að endurvekja. Húsið hefur verið í niðurníðslu um margra ára skeið og liggur undir skemmdum og niðurrifi ef ekki verður hugað að klæðningu og viðgerð svo húsið haldi vindi og vatni og brunaveggur hrynji ekki. Útlit og umhirða Skjaldbreiðar hefur verið Alþingi til vansa en því miður hefur efnahagshrunið haft áhrif á framkvæmdir Alþingis eins og annarra stofnana.

Hæstv. forseti. Það liggur meira undir því að klæða Skjaldbreið sem næst upprunalegri mynd. Ákvörðun snýr einnig að deiliskipulagi Alþingisreitsins. Fara þarf í endurskoðun á núgildandi deiliskipulagi með tilliti til endurgerðar hússins, tengigangs (Forseti hringir.) sem ætlaður er milli húsa á Alþingisreitnum, skipulags svæðisins og byggingamagns á reitnum. Því tel ég rétt að hefja endurskoðun (Forseti hringir.) á deiliskipulagi hið fyrsta á nýju ári.