141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:25]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að leggja til auknar fjárveitingar bæði til Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólaskóla, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík. Ég fagna því. Hins vegar verður að segjast eins og er að fjárþörf bæði Hólaskóla og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og einnig Bifrastar er miklu meiri en hér er brugðist við. Þessar menntastofnanir eru grundvallarstofnanir bæði fyrir þær atvinnugreinar sem þær þjóna og einnig líka fyrir þau samfélög sem þar eru. Þó að hér sé bætt nokkru í þá er enn eftir verulegur vandi sem ég harma að ekki skuli hafa verið tekið á og verður þá að bíða úrlausnar áfram. Starf þessara stofnana er alveg ómetanlegt og fólkið sem þar vinnur leggur mikið á sig einmitt til að mæta þeim fjárhagsvanda (Forseti hringir.) sem þær hafa staðið frammi fyrir, en gangi þeim allt í haginn.