141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega þessum 75 millj. kr. viðbótarstyrk sem verið er að veita á lið 25 til innanlandsflugs. Með þessu er verið að tryggja áframhaldandi þjónustu við staði sem liggja landfræðilega afskekkt, þar sem aðrar samgöngur eru oft og tíðum stopular bæði land- og sjóveg, sérstaklega á vetrum. Þetta eru staðir eins og Gjögur, Bíldudalur, Þórshöfn, Vopnafjörður, Grímsey og fleiri slíkir. Það er því sérstakt fagnaðarefni að þetta viðbótarfjárframlag skuli hafa fengist til styrkingar innanlandsflugs því að innanlandsflugið er, eins og hér hefur komið fram, almenningssamgöngur við þessa staði, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Ég vil nota tækifærið úr því að ég er komin hingað í ræðustól og fagna því (Forseti hringir.) að þeirri viðspyrnu skuli nú hafa verið náð sem birtist í þessum fjárlögum með nýrri sókn til framtíðar.