141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:32]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að viðbótarfjárveiting skuli koma inn til að treysta stöðu innanlandsflugs. Hins vegar er ámælisvert að berja þurfi í gegn á milli umræðna við fjárlagagerð grundvallarfjárveitingu til að halda uppi þeim almenningssamgöngum sem þetta flug er. Það á ekki að þurfa að koma með sértækar aðgerðir í þessum efnum, þetta á að vera svo sjálfsagt.

Ég vil minna á þá umræðu sem var hérna við fjárlagagerðina síðast. Þá voru haldnar nákvæmlega sömu ræður og tilgreind sérstaklega upphæð til flugs á Sauðárkrók sem átti að vera til þess verkefnis en aldrei fór það flug í gang. Væntanlega er sú fjárveiting enn til staðar til að hefja flug á Sauðárkrók. Það hefði verið fróðlegt að heyra frá innanríkisráðherra hvort þetta sé nægilegt fjármagn til að standa með öruggum hætti að því áætlunarflugi (Forseti hringir.) sem við viljum standa að, hvort sem það er Gjögur, Sauðárkrókur, Höfn (Forseti hringir.) eða Bíldudalur.