141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég mótmæli þeim vinnubrögðum sem ástunduð hafa verið af hálfu stjórnarmeirihlutans við gerð þessara fjárlaga. Ég mælist eindregið til þess að það verði meiri innstæða fyrir þeim samstarfsvilja sem fulltrúar meiri hlutans hafa boðað við fjárlagagerð og þann vanda sem við er að glíma í fjármálum ríkisins því að öðrum kosti ná menn ekki að koma böndum á hann. Hún er alveg dæmalaus, og í rauninni staðfesting á þeirri alvöru sem í þessum orðum felst, sú málsmeðferð sem viðhöfð var í upphafi þessa fundar þegar fram kom breytingartillaga frá fulltrúum meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd til breytinga á því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir.

Ég hef kallað þessi fjárlög kosningafjárlög, þau séu jólagjafalisti og það birtist ágætlega í því síðasta sem kom fram í atkvæðaskýringu frá stjórnarliða varðandi Perluna svokölluðu og náttúruminjasafn þar. Það er engin heimild, hvorki í fjárlögum ársins 2012 né 2013, fyrir þeim áformum sem þar eru á ferðinni og það gefur ágæta mynd af því verklagi sem viðhaft hefur verið.