141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

446. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, með síðari breytingum. Þessi breytingartillaga fjallar um hlutverk Þróunarsamvinnunefndar.

Utanríkismálanefnd flutti frumvarpið um breytingu á umræddum lögum. Þar er gert ráð fyrir einni breytingu á 3. mgr. 2. gr. laganna sem fjallar um Þróunarsamvinnunefnd og markmið þessa frumvarps er að skýra hlutverk hennar samkvæmt 2. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Þannig verði tekinn af allur vafi um aðkomu Alþingis og fulltrúa þingflokkanna að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um málefni alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, tvíhliða sem marghliða. Í frumvarpinu er hlutverk Þróunarsamvinnunefndar skilgreint nánar en nú er samkvæmt 2. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Það er kveðið á um þau efnisatriði sem Þróunarsamvinnunefnd á að fjalla um, reglubundin störf, aðstöðu, greiðslu kostnaðar vegna starfsemi og reglubundna upplýsingagjöf til utanríkismálanefndar.

Utanríkismálanefnd fékk á sinn fund til að fjalla um þessi mál bæði fulltrúa úr núverandi Þróunarsamvinnunefnd, en umboð hennar er nú runnið út, sem og fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Allir þessir umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð frumvarpsins og fögnuðu markmiði þess um að skýra störf og hlutverk þessarar nefndar. Helstu athugasemdir umsagnaraðila sem fram komu lutu að mikilvægi þverpólitísks samstarfs og samstöðu og einnig að því hverjum mætti fela að leggja nefndinni til aðstöðu og greiða kostnað vegna starfsemi hennar.

Það er ánægjulegt að segja frá því að nefndin var öll sammála um að flytja þetta frumvarp, taldi mikilvægt að treysta starf Þróunarsamvinnunefndar, en því miður hefur starfsemi hennar verið í lágmarki undanfarið kjörtímabil, einkum og sér í lagi vegna þeirrar umgjarðar sem um hana var búin í gildandi lögum. Þess vegna var þetta frumvarp flutt. Ég ætla að leyfa mér að öðru leyti, frú forseti, að vísa til nefndarálitsins þar sem grein er gerð fyrir helstu sjónarmiðum nefndarinnar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með einni breytingu sem nefndin gerir sjálf á eigin frumvarpi eftir að hafa átt fundi með þeim aðilum sem ég gat um.

Það er gerð tillaga um að 6. málsliður 1. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Enn fremur fjallar nefndin um starfsáætlanir á sviði þróunarsamvinnu, svo sem marghliða samvinnu á vegum ráðuneytisins og tvíhliða samvinnu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.“

Undir þetta nefndarálit rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Árni Páll Árnason, Mörður Árnason, Helgi Hjörvar, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Álfheiður Ingadóttir.

Ég legg sem sagt til að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til 3. umr.