141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

446. mál
[15:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég taka undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og taka undir þá lýsingu sem hann greindi frá um þetta mál. Ég ætla svo sem ekki að fara að endurtaka það heldur vildi einungis lýsa stuðningi mínum við málið.

Þetta er ekki stór breyting en ég tel að hún sé afar mikilvæg. Í vinnu nefndarinnar kom fram að þessi nefnd, Þróunarsamvinnunefnd, hefur ekki náð að sinna skyldum sínum eða finna verklag sem tryggir það sem ætlað var í upphafi við setningu þessara laga árið 2008. Þar var þessari nefnd ætlað að vera tengiliður Alþingis inn í þennan málaflokk og tryggja aðkomu. Á þeim tíma var verið að gera breytingar á stjórnarfyrirkomulagi eins og rakið er í nefndaráliti og í greinargerð með frumvarpinu þannig að kjörnir fulltrúar Alþingis áttu ekki lengur sæti í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar.

Við erum með afar mikilvægan málaflokk undir hérna og mikla fjármuni af skattfé almennings sem er varið til hans. Það er algjörlega borðleggjandi að Alþingi, fjárveitingavaldið, hafi aðkomu og tengiliði inn í það hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Ég fagna því þessari breytingu, fagna því að við náðum að vinna þetta í góðu samstarfi í nefndinni og ég þakka Þróunarsamvinnunefnd sem kom á fund hv. utanríkismálanefndar og vakti athygli okkar á þessu þegar við hófum starfið í haust og benti okkur á þá annmarka og vankanta sem voru á löggjöfinni að þessu leyti. Ég vona sannarlega að þessi breyting verði til þess að því góða fólki sem þar á sæti verði betur gert kleift að sinna skyldum sínum og rækta þau tengsl, það samstarf og þá samvinnu við Alþingi og utanríkismálanefnd í þessum málaflokki eins og til var ætlast. Ég styð því þetta frumvarp og legg til að það verði samþykkt eins og undirskrift mín á þessu nefndaráliti ber með sér.