141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

veiting ríkisborgararéttar.

520. mál
[16:14]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera grein fyrir því að allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt fram þetta frumvarp eftir að hafa farið í gegnum 73 umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt. Það er tillaga nefndarinnar að 39 einstaklingar hljóti íslenskan ríkisborgararétt og vil ég nefna það að í þeim hópi er allstór hópur flóttamanna sem við buðum hingað til landsins árið 2007 og hafa dvalið í landinu undanfarin fimm ár við afskaplega góðan orðstír leyfi ég mér að segja.

Ég vil árétta það að ég tel að fullt tilefni sé til að fram fari heildarendurskoðun á bæði útlendingalögum og ekki síður lögunum um íslenskan ríkisborgararétt. Þau voru sett á Alþingi fyrir réttum 60 árum og er mikilvægt að við förum í gegnum þann lagabálk heildstætt og skoðum hvort ekki sé rétt að færa ákveðin ákvæði þeirra laga nær nútímanum þannig að svo stór hópur þurfi ekki á hverju ári að leita á náðir Alþingis út af lagaákvæðum sem geta ekki talist í fullu samræmi við þær kröfur sem við gerum um mannréttindi í nútímanum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)