141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

Íslandsstofa.

500. mál
[16:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir með hæstv. utanríkisráðherra að álit fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins hafi verið vont. Mér finnst það sjónarmið sem þar kemur fram skiljanlegt. Það sem mér finnst hins vegar mjög skrýtið er hversu pólitískt álitið er og þvert á skoðanir hæstv. ríkisstjórnar, það kemur fram. Það má kannski kalla þetta sjálfstæðisyfirlýsingu fjárlagaskrifstofunnar. Ég var starfsmaður hennar — og hef nú komið hér og rakið starfsferil minn í hverri ræðunni á fætur annarri — og minnist þess að fjárlagaskrifstofan kom sannarlega sínum skoðunum á framfæri, en það vakti athygli mína hversu hvasst þetta álit var.

Ég held að sjónarmið skrifstofunnar sé mjög skynsamlegt og það eru rök fyrir því að þegar stofnanir eða fyrirtæki hafa markaðar tekjur sem bara tikka inn og stofnanir þurfa ekki að bera sig eftir björginni geta þær orðið værukærar. Þetta snýst jú allt um það að fara vel með opinbert fé þannig að ef við finnum réttu formúluna í sameiningu fyrir þessu er það hið besta mál.

Það mikilvæga er, og þess vegna fagna ég þeirri niðurstöðu sem náðist, að gefa tíma fyrir það samtal sem greinilega þarf að eiga vegna þess að um þetta eru skiptar skoðanir og rök fyrir báðum leiðum.