141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

Íslandsstofa.

500. mál
[16:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samtalið hefur farið fram en ég held að því sé ekki lokið og þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áðan að það er gott að rými skapist til þess í þessu ferli öllu.

Varðandi freistingar um að skera niður (Gripið fram í.) á erfiðleikatímum eru freistingarnar víða vegna þess að það fylgja líka freistingar mörkuðu tekjustofnunum. Við höfum séð það varðandi ýmiss konar ákvæði um sóknargjöld. Á mínum dögum í fjármálaráðuneytinu voru þetta kölluð „þrátt-fyrir“-ákvæði vegna þess að ákvæðin voru alltaf orðuð þannig að þrátt fyrir ákvæði þetta og þetta um að féð ætti að renna í ríkissjóð yrðu 200 milljónir teknar af því og þeim varið í annað. Freistingarnar geta því komið til jafnvel þótt tekjustofnarnir séu markaðir.

Ég skil vel embættismenn fjármálaráðuneytisins vegna þess að það er náttúrlega miklu einfaldara að hafa hlutina alla eins, það er svona ákveðin kassalaga hugsun sem embættismenn þróa með sér. Við í pólitíkinni viljum kannski hafa meira svigrúm og sveigjanleika. En það sem mér finnst mikilvægast er sérstaða Íslandsstofu. Hún er ekki bara fjármögnuð af hinu opinbera þó að stór hluti teknanna komi af opinberu fé. Hluti teknanna kemur frá atvinnulífinu og atvinnulífið á þar aðila í stjórn. Þess vegna held ég að við þurfum að taka það til greina þegar við ræðum fjármögnun Íslandsstofu, miðað við aðrar stofnanir eða fyrirtæki á vegum ríkisins, að þarna er ríkisrekstur en með þátttöku atvinnulífsins. Við þurfum að taka tillit til þeirrar blöndu.