141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og flestir vita tala ég hér fyrir lagabótum í þinginu nánast í hverju einasta máli og er flutningsmaður frumvarps um lagaskrifstofu. Þetta mál er einmitt dæmi um hvernig ekki á að vinna málin. Á þessu kjörtímabili er búið að þvæla fram og til baka með lög um Stjórnarráð Íslands og frumvarp til upplýsingalaga og verið að kasta boltanum á milli manna í þinginu missiri eftir missiri varðandi ákvæði um að taka skuli upp ríkisstjórnarfundi.

Svo endar það þannig að hv. þingmaður Hreyfingarinnar, Þór Saari, og núverandi meðlimur ríkisstjórnarflokkanna, hv. þm. Þráinn Bertelsson, sem settu fram þá kröfu á sínum tíma að ríkisstjórnarfundir skyldu vera teknir upp, hafa fengið að sitja hér í skjóli þess að taka átti ákvæðið inn í lögin og fresta því svo. Að lokum ræddum við frumvarp um Stjórnarráð Íslands. Þá var sett frestunarákvæði inn í þau lög þar til búið væri að þurrka þetta ákvæði út úr frumvarpi um upplýsingalög. Bara þetta eina atriði er því búið að þvælast hér fram og til baka. Það er akkúrat dæmi um hvernig ekki á að vinna mál í þinginu að mínu mati, því að tími Alþingis og þingmanna er mjög dýrmætur þannig að við eigum ekki alltaf að vera með sömu málin og frumvörpin til umfjöllunar.

Hv. þm. Róbert Marshall hefur staðið sig vel í þessu máli að mínu mati og er ágætt að það komi fram. Hv. þingmaður fór yfir kaflann varðandi vinnugögnin og annað, en upp kom mikil óánægja vegna þess að fjárlaganefnd fékk ekki ákveðin vinnugögn ríkisstjórnarinnar í fjárlagagerðinni. Er hér nóg að gert og er búið að opna nógu vel (Forseti hringir.) á þær upplýsingar sem fjárlaganefnd þarf til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu (Forseti hringir.) samkvæmt frumvarpinu að mati hv. þingmanns?