141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Róbert Marshall) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Málið hefur auðvitað tekið miklum breytingum og ég skal ekki fullyrða um hvaða afleiðingar það hefur fyrir hv. fjárlaganefnd og aðgengi fjárlaganefndar að upplýsingum. Ég vona að fjárlaganefnd sé ekki að óska eftir upplýsingum frá stjórnsýslunni á grundvelli upplýsingalaga, enda horfir þá nýrra við. (Gripið fram í.)

Ég vil gera að umtalsefni orð hv. þingmanns um vinnuferli þessa máls, ég er ósammála því að það sé dæmi um hvernig ekki eigi að vinna mál. Þvert á móti er búið að taka á því nokkra snúninga í þinginu, búið er að gera umtalsverðar breytingar á því. Þegar ég starfaði sem fréttamaður í þinginu á sínum tíma komu mál úr ráðuneytum. Þau voru lögð hér fram af þeim og fóru nánast óbreytt í gegnum þingið. Það er liðin tíð. Þetta er einmitt dæmi um mál sem farið hefur í gegnum mikla umræðu, tekið gríðarlega miklum breytingum og eru þær allar til bóta. Þær eru ekki unnar í andstöðu eða stríði við ráðuneytið sem leggur málið fram heldur miklu frekar í samstarfi og rökræðu milli forsætisráðuneytis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og svo auðvitað innan nefndarinnar þar sem meiri hlutinn ákveður að leggja þetta fram.

Að öðru leyti þakka ég hlý orð í minn garð frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur.