141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:26]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætlaði nú ekki að halda langa ræðu um þetta mál en þó vildi ég koma hingað upp og fagna þeim áfanga að við séum líklegast loksins að afgreiða þetta mál. Það hefur verið unnið hér trekk í trekk í þinginu og verið tilbúið til afgreiðslu, en stöðvað í svokölluðum samningum um þinglok. Þetta hefur gerst í nokkur skipti en nú erum við held ég loksins að landa ágætu máli og ef til vill hefur það batnað í ferlinu því það hefur náttúrlega verið lagst yfir hverja einustu grein oftar en einu sinni.

Ég ætla líka að nota tækifærið og ég hafði nú eiginlega viljað bera af mér sakir fyrr í þessari umræðu, en ég verð að segja það, forseti, að mér blöskraði algjörlega málflutningur Vigdísar Hauksdóttur þingmanns hér áðan. Hún fór með alveg ótrúleg brigsl í andsvari við Róbert Marshall framsögumann og þingmann þessa máls. Eins og atburðarásin var lögð upp í ræðu þingmannsins er ekkert fjarri sanni. Mér sárnar að þurfa að koma hingað upp og eyða ræðutíma mínum í þetta, í ræðu um mikilvægt mál.

Að öðru leyti vil ég þakka nefndinni fyrir mjög góða samvinnu um þetta mál. Þingmenn úr nánast öllum flokkum hafa komið að því og við höfum farið vel yfir málið. Ég held að við getum bara verið stolt af þessari vinnu.