141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég var í Kanada fyrir um ári og þar kom svolítið merkilegt fram að upplýsingalög Kanadamanna, sem voru talin vera bestu í heiminum fyrir svona 15 árum, voru í raun orðin einhver lélegustu upplýsingalög í heiminum út af því að þau höfðu ekki verið þróuð áfram í takt við tímann. Telur hv. þingmaður að innbyggt í þessi lög sé eitthvað sem tryggi að þessi nýju upplýsingalög verði ekki úrelt strax?

Svo langaði mig líka að taka undir hvað það er mikilvægt að þetta lúti ekki bara að hefðbundinni stjórnsýslu, þingmaðurinn kom mjög vel inn á það, t.d. varðandi vinnuskjöl og annað og sveitarfélögin. Það er fínt að það sé tekið tillit til að minni sveitarfélög þurfi lengri tíma til að aðlagast. En er ekki hv. þm. Lúðvík Geirsson sammála mér um að ekkert sé því til fyrirstöðu að þau geti verið búin að því löngu áður en tímaramminn sem þeim er gefinn er á enda?