141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:51]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Ég held að það sem hafi skipt máli þegar lögin voru sett á sínum tíma var gott samráð og samstarf við aðila eins og t.d. Blaðamannafélagið um það hvernig þau voru gerð úr garði. Horft var til fyrirmyndar í sænsku lögunum sem eru kannski og hafa verið þau þróuðustu um langt skeið. Ég held að þessi lög hafi um margt dugað vel á þessum tíma.

Annað sem skipti máli var að menn komust að þeirri niðurstöðu að hafa úrskurðarnefnd til að tryggja að það sem menn höfðu verið að togast á um í lagasetningunni yrði a.m.k. á einhverjum vettvangi til frekari yfirferðar og umfjöllunar. Sú nefnd hefur mótað mjög skýra málsmeðferð í þessum málum og túlkun á lögunum og leyst úr ýmsum þáttum. Við höfum hins vegar upplifað mjög breytt samfélag á þessum 15 árum. Það breytta rafræna upplýsingamiðlunarsamfélag sem við lifum í í dag verður að endurspeglast í þessari lagaumgjörð. Ég er sannfærður um að vel hafi tekist til í þeim efnum.

Í raun og veru er ekki svo byltingarkennd breyting á lögunum vegna þess að þau voru um margt mjög vel úr garði gerð á sínum tíma, en við erum að mæta nýjum tímum. Ég tek undir kröfuna um að aðilar, bæði ríkisvald og sveitarfélög, séu undirbúin undir það og klári sína heimavinnu til að geta sinnt skyldum sínum gagnvart þessum þáttum. Það er ekkert stórátak að fara í það verkefni. Menn verða bara að setja það í forgang. Ég vona að þessi lög verði til þess.

Ég bendi á það að sum sveitarfélög hafa staðið framar öðrum í því og gengið á undan með því að veita gögn og upplýsingar, til að mynda minn heimabær Hafnarfjörður, sem birtir öll fylgigögn með fundargerðum þannig að menn sjái ekki lengur bara einhverja afgreiðslu funda heldur öll gögn sem heyra undir viðkomandi mál. Það er til mikillar fyrirmyndar.