141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru örfá atriði sem ég ætlaði að koma inn á í lokin. Í fyrsta lagi í tilefni af orðum hv. þm. Lúðvíks Geirssonar rétt áðan um að í meðförum úrskurðarnefndar hafi reynt hvað mest á vinnugagnaskilgreiningar og 50 úrskurðir hefðu fallið þar um. Það er rétt og maður hefur heyrt til dæmis á mörgum blaðamönnum að það séu kannski tvö atriði í upplýsingalögunum sem hafi fyrst og fremst valdið núningi. Annars vegar er það vinnugagnaskilgreiningin sem hefur fengið ákveðna mótun í gegnum úrskurði upplýsinganefndar en hins vegar er það atriði sem við höfum kannski ekki rætt mikið í dag, það er málsmeðferðartími í meðförum kærumála vegna upplýsingalaga. Það er atriði sem ekki verður lagað með einfaldri lagabreytingu eða með því að smella fingri, heldur er það spurning um að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi nægilega burði til að sinna þeim fjöldamörgu málum sem til hennar koma.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé gott fyrirkomulag að hafa úrskurðarnefnd í upplýsingamálum. Það er ekki sama fyrirkomulag í öðrum löndum, það er mismunandi eftir löndum hvernig er farið með ágreiningsmál út af upplýsingalögum, en í þessu tilviki held ég að úrskurðarnefnd sé af hinu góða. Vandinn er sá að málsmeðferðartími hjá henni hefur verið allt of langur. Við vitum, m.a. frá þeim sem starfað hafa í nefndinni og starfsmönnum forsætisráðuneytisins, að þessi hefðbundnu vandamál, mannfæð og fjárskortur, hafa verið að þvælast fyrir. Eitthvað er forsætisráðuneytið að reyna að bæta úr þessu og vonandi skilar það árangri. Það er verið að auka starfshlutfall lögfræðings sem vinnur við þessi mál og ég vona að það leiði til betri niðurstöðu.

Vandamálin hafa í mjög mörgum tilvikum einfaldlega snúið að því að úrræðið, þ.e. að kvarta eða kæra til úrskurðarnefndarinnar, hefur tekið svo langan tíma að sá réttur sem menn eiga á grundvelli upplýsingalaganna hefur kannski ekki nýst þeim sem skyldi. Menn fá hugsanlega rétt til þess að fá upplýsingarnar, fá úrskurð sér í vil, allt of seint. Þetta hefur oft á tíðum verið mjög truflandi fyrir til dæmis fréttamenn og blaðamenn vegna þess að þarna er um að ræða ekki bara nokkurra vikna heldur jafnvel margra mánaða málsmeðferðartíma sem leiðir til þess að upplýsingarnar berast seint og illa. Það er ekki hægt að útiloka, svo ég sletti nú, hæstv. forseti, að ákveðin tafataktík af hálfu stjórnvalda geri að verkum að úrræði upplýsingalaga hafa ekki reynst sem skyldi.

Það voru örfá atriði fleiri sem ég ætlaði að nefna, en ég ætla þó að láta nægja að nefna eitt í tilefni af orðaskiptum hv. þingmanna Birgittu Jónsdóttur og Lúðvíks Geirssonar í sambandi við það hversu lengi þessi lög munu endast og hvort þau krefjist endurnýjunar. Auðvitað munu þau krefjast endurnýjunar og endurskoðunar. Ég ætla að nefna nokkur atriði í því sambandi sem ég held að við verðum að fá reynslu á og vera tilbúin að endurskoða þegar reynslan er komin. Þar vil ég nefna 2. gr. þar sem opnað er á meiri upplýsingagjöf frá sjálfstæðum lögaðilum sem eru í eigu ríkisins eða opinberra aðila að meiri hluta eða miklu leyti. Þar eru, eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, undantekningarákvæði. Það á eftir að reyna á það hvort undantekningarnar verða kannski meginreglan þegar kemur að framkvæmdinni. Sama á við um lögaðila sem eru sjálfstæðir og óháðir ríkinu en veita engu að síður einhverja opinbera þjónustu. Það á eftir að reyna svolítið á hvernig það verður skilgreint.

Það á einnig eftir að reyna í meira mæli á skilgreiningar eða útfærslu á þeim breytingum sem hafa átt sér stað á tilgreiningarreglunni sem við vitum að aðilar í stjórnsýslunni og sveitarfélögum og fleiri hafa ákveðnar áhyggjur af að muni leggja óhæfilega miklar skyldur á þá. Á móti er bent á að það getur verið of takmarkandi að menn þurfi að tilgreina viðkomandi mál jafnskýrt og er samkvæmt núgildandi lögum. Þar togast á ákveðnir hagsmunir og það á eftir að reyna á hvernig framkvæmdin verður.

Að lokum á eftir að reyna á þætti sem eru vissulega háðir nokkurri óvissu eins og í 3. tölulið 10. gr. þar sem talað er um að halda megi upplýsingum leyndum eða frá almenningi, upplýsingarétturinn gildi ekki, þar sem í húfi eru mikilvægir fjárhagslegir hagsmunir ríkisins. Það er viðbúið að á þetta muni reyna því eitt er auðvitað að setja lagareglur sem hafa jákvæðan og góðan tilgang og annað er að eftirfylgnin og framkvæmdin sé eins og til er ætlast. Ef til þess er vilji af hálfu stjórnvalda að halda upplýsingum leyndum eru leiðirnar margvíslegar ef út í það er farið. — Gengur nú hæstv. fjármálaráðherra í salinn. — Mun ég ekki fara nánar í þau mál, en hef vakið athygli á slíkum upplýsingamálum í öðru samhengi sem snýr frekar að þingsköpum en upplýsingalögum.

Ég þakka eins og aðrir fyrir ágæta vinnu í nefndinni. Ég er jákvæður gagnvart mörgum þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá því það kom fram. Eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni hef ég enn þá áhyggjur af ýmsum þáttum og hefði jafnvel talið að það væri ástæða til að liggja nánar yfir þeim. Við verðum hins vegar að sjá hvernig þessar breytingar reynast, hvaða kostnaður og fyrirhöfn hlýst af þeim og hvort þær fela raunverulega í sér þær réttarbætur sem ætlunin er.

Hins vegar vil ég taka undir það sem aðrir ræðumenn hafa sagt að innan nefndarinnar hefur verið góður vilji til þess að vinna þetta málefnalega og taka mark á athugasemdum og sjónarmiðum sem upp hafa komið. Það er auðvitað jákvætt. Ég vil ekki útiloka að þarna séu ákvæði inni sem annaðhvort munu ekki ná tilgangi sínum, eins og ákvæðið um upplýsingaskyldu lögaðila sem eru í eigu ríkisins, eða ekki ná tilgangi sínum nema að litlu leyti vegna þess að undantekningarnar verði margar, og í öðrum tilvikum geti reynst erfitt að skilgreina hlutina og það geti að minnsta kosti tekið þó nokkurn tíma að fá þá reynslu og þann praxís sem þarf til að reglurnar nái tilgangi sínum. Það er ekki sjálfgefið að við sjáum miklar breytingar strax.

Meðan nýju reglurnar eru enn í túlkun og menn láta reyna á túlkun nýrra ákvæða kann að vera að við sjáum ágreiningsmálum á þessu sviði fjölga. Verði hins vegar staðið við að búa þannig að úrskurðarnefndinni eins og sagt hefur verið er að minnsta kosti tryggt að hún verði nokkuð virkt úrræði fyrir þá aðila sem ósáttir eru við niðurstöðu eða túlkun stjórnvalda í þessum efnum til að fá sinn hlut bættan eða fá sinn rétt.

Ég legg að lokum, hæstv. forseti, mikla áherslu á að það verði passað upp á að úrskurðarnefndin hafi burði og tök á að sinna sínu starfi. Ef svo er, ef réttarúrræði þeirra sem eru af einhverjum ástæðum ósáttir eða í ágreiningi við stjórnvöld að þessu leyti er skilvirkt og möguleikarnir til þess að fá leiðréttingu sinna mála eru góðir hef ég miklu minni áhyggjur af efnisreglunum sem í frumvarpinu felast.