141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef þá ánægju að fá að mæla fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um það stjórnarfrumvarp sem fyrir liggur og varðar kostnað við eftirlit með fjármálastarfsemi, þ.e. greiðslu kostnaðarins við Fjármálaeftirlitið. Ákvörðun um það hver sá kostnaður eigi að vera og hvernig tekna til þess skuli aflað er tekin hér með sérstöku frumvarpi á hverju ári og er það gert á grundvelli laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Gert er ráð fyrir að á árinu 2013 aukist útgjöld Fjármálaeftirlitsins um 1,7% frá árinu í ár og verði 1.944 millj. kr. en á yfirstandandi ári voru útgjöld stofnunarinnar 1.912 millj. kr. Gert er þó ráð fyrir að lækka eftirlitsgjaldið sem fjármálafyrirtækin greiða. Ríkissjóður greiðir ekki kostnaðinn við rekstur FME heldur fjármálafyrirtækin sjálf sem eftirlit er haft með. Gert er ráð fyrir að þetta eftirlitsgjald sem á yfirstandandi ári nam 1.859 millj. kr. lækki um 116 milljónir og verði 1.743 millj. kr. Hins vegar verði heimilt að nota 201 milljón í yfirfærslu milli ára til að loka þessu dæmi.

Málið var til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og komu fyrir nefndina gestir til að reifa málið. Fyrir liggur að sú nefnd á samkvæmt lögunum að fara yfir tillögurnar og gefa umsögn um þær og sú umsögn var kynnt. Ljóst er að meiri samstaða er af hálfu fyrirtækjanna sem eftirlitinu sæta um rekstraráætlunina fyrir næsta ár en var um áætlunina fyrir yfirstandandi ár og er það vel.

Nokkur umræða spannst um hlutverk Fjármálaeftirlitsins við eftirlit með slitastjórnunum, einkum í ljósi þess að gert er ráð fyrir að gjald sem lagt er á slitastjórnirnar þess vegna lækki, vegna þess að eftirlitið mun á næsta ári minnka. Það helgast af því að rannsóknum er þær varða lýkur nú um áramótin. Nefndarmenn lögðu margir áherslu á að þetta eftirlit yrði eflt og voru þar meðal annars sérstaklega rædd viðskipti slitastjórnarmanna við eigin fyrirtæki sem nokkuð hefur verið í opinberri umfjöllun.

Er gerð tillaga um að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.