141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um neytendaverndina. Ég tek undir að það er sannarlega eitt af stærstu verkefnum okkar á þessu sviði að efla hana og samræma vegna þess að hún er á of mörgum stöðum í kerfinu. Nefnd er starfandi sem vinnur að tillögum um það hvernig megi samræma og efla neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég vænti mikils af störfum hennar og hún skili af sér síðar í vetur.

Ég er þeirrar skoðunar að best færi á því að eftirlitið með fjármálastarfseminni sem lýtur að fjármálastöðugleika og öðrum slíkum þáttum væri einfaldlega best fyrir komið í Seðlabanka Íslands og ætti að flytjast þangað. Og að FME og eftir atvikum aðrir aðilar sem haft hafa með höndum að einhverju leyti neytendavernd á fjármálamarkaði ættu að vera á einum stað í einni stofnun að sinna neytendavernd og það af miklu meira afli en nú er. Ég held að fréttir af því hvernig framganga slitastjórna hefur verið, á köflum að minnsta kosti, gagnvart viðskiptavinum sé skýrt dæmi um þörfina fyrir það.

Ég tek undir það að í umfjöllun nefndarinnar með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins gaf hún tilefni til þess að nefndin taki til athugunar hvort veita þurfi eftirlitinu frekari, sterkari og ríkari heimildir til að hafa eftirlit með slitastjórnunum og hlutast til um það hvað þær eru að gera. Ég tel að ekkert sé að vanbúnaði að nefndin fari saman í þá vinnu strax í upphafi nýs árs.