141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér brá þegar ég sá að þetta frumvarp var komið til 2. umr. vegna þess að ég tel að það sýni algjört skilningsleysi stjórnarmeirihlutans á aðstæðum á fjármálamarkaði.

Í dag eiga svokallaðir vogunarsjóðir, sem reyndar hegða sér eins og hrægammasjóðir, meiri hluta krafna eða 80% krafna í Glitni og Kaupþing banka en þessi tvö þrotabú eru eigendur Arion banka og Íslandsbanka. Sala á eignarhlut ríkisins í þessum fyrirtækjum mun auðvitað fyrst og fremst vekja áhuga þessara aðila, ekki síst vegna þess að þeir eru lokaðir hér inni í hagkerfinu með mikið fjármagn sem þeir sjá ekki fram á að komast út með nema geta náð yfirráðum yfir banka og misnotað eignarhald sitt þar á til að komast fram hjá gjaldeyrishöftunum. Ef það tekst ekki munu slíkir eigendur misnota eignarhaldið og herða á innheimtu lána auk þess sem þeir munu hækka vexti, enda er fjármálamarkaðurinn þannig að bankarnir geta meira eða minna bara sett vextina eins og þarf til að tryggja háar arðgreiðslur.

Frú forseti. Ég vil bara spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason hvort hann hafi íhugað hvaða þýðingu það hefur að selja eignarhlut ríkisins í þessum fjármálafyrirtækjum þegar stórir áhættufjárfestar eru hér innilokaðir og leita leiða til að komast út með fjármagn.