141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt að fyrst og fremst sé litið til þess verðs sem fáist fyrir eignarhlutinn. Það er einmitt fjallað um það, m.a. í nefndarálitinu og í greinargerð, ef ég man rétt, eða skýringum með lagatexta, að litið sé til fleiri sjónarmiða. Sagt er hverjir séu væntanlegir kaupendur, að vandað verði til þess. Það eru gerðir fyrirvarar um hvernig tilteknir hlutir verði fjármagnaðir sem kemur fram í breytingartillögu meiri hlutans, og sömuleiðis eru gerðir fyrirvarar um það í þeirri breytingartillögu að jafnræðis verði gætt á milli kaupenda þannig að reynt er að girða fyrir það með ýmsum hætti.

Það skiptir auðvitað máli í þessu sambandi líka hvað er verið að selja. Er verið að selja bankastofnanir í heilu lagi, eins og hér var gert, eða gefa, eins og var gert hérna einu sinni, eða er verið að selja tiltekinn hlut? Þarna erum við í öllum tilfellum að tala um tiltekinn hlut í fjármálastofnunum, í flestum tilfellum lítinn hlut en mjög takmarkaðan í stærsta bankanum, og sömuleiðis að tryggja yfirráð (Forseti hringir.) ríkisins yfir að minnsta kosti 70% í þeim stærsta.