141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[19:41]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga sem mér finnst ekki nægilega vel svarað í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar.

Fyrst er spurningin hvort það sé réttur skilningur hjá mér að minni hlutinn telji að nú sé ekki rétti tíminn til að selja í ljósi þess að við búum við gjaldeyrishöft og að vogunarsjóðir eru hér mjög umsvifamiklir, ekki síst á fjármálamarkaði.

Síðan mundi ég gjarnan vilja fá að vita hvort hv. þingmaður sé tilbúinn að styðja breytingartillögu þess efnis að ekki megi selja eignarhlut ríkisins í bönkum og sparisjóðum til vogunarsjóða. Jafnframt hvort hv. þingmaður sé tilbúinn að styðja breytingartillögu sem felur í sér að leitað verði samþykkis Alþingis fyrir því að taka ákveðnu sölutilboði. Eins og frumvarpið er í dag er það vald sett í hendurnar á hæstv. bankamálaráðherra.