141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[19:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Lengi getur vont versnað. Fyrirhuguð sala á eignarhlutum ríkisins í bönkum og sparisjóðum er enn ein ákvörðun stjórnarmeirihlutans sem keyrð er í gegn hugsunarlaust og án tillits til þess hvaða hörmungar hún gæti kallað yfir þjóðina. Hörmungarnar sem hætta er á að dynji á þjóðinni verði eignarhlutir ríkisins seldir við núverandi aðstæður eru tvíþættar. Annars vegar er hætta á að eigendur bankanna hegði sér eins og hrægammasjóðir og misnoti eignarhald sitt til þess að sniðganga gjaldeyrishöftin og þurrka upp gjaldeyrisforða þjóðarinnar sem mun leiða til hruns krónunnar. Ef það gerist getum við ekki talað um efnahagslega sjálfstæða þjóð, frú forseti. Hins vegar er hætta á því að eigendur bankanna hegði sér eins og hrægammasjóðir og nýti sér eignarhaldið til að hreinsa út úr bönkunum með arðgreiðslum sem byggja á aukinni hörku við innheimtu lána og hækkun vaxta.

Seðlabankinn bendir á í umsögn sinni að miklu máli skipti fyrir áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins, greiðslujöfnuð, gengi krónunnar og gjaldeyrisforða, hvort kaupandi sé innlendur eða erlendur aðili. Á mannamáli þýðir þetta að sala á eignarhlutum ríkisins til vogunarsjóða mun stofna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í hættu.

Sennilega er það vanmat á stjórnarmeirihlutanum að tala um að hann taki ákvarðanir um svo mikilvæga sölu hugsunarlaust. Augljóst er að samþykkja á almenna heimild til ráðherra bankamála með lágmarksumfjöllun þingmanna. Frumvarpinu var vísað til umsagnar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, en meiri hluta fjárlaganefndar afgreiddi frumvarpið út til 2. umr. án þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fengi ráðrúm til að ljúka umfjöllun um málið.

Frú forseti. Ég geri athugasemd við þessa málsmeðferð, ekki síst í ljósi þess að í 2. gr. frumvarpsins er hæstv. ráðherra skyldaður til að senda greinargerð um ráðgerða sölumeðferð til hv. fjárlaganefndar og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Hvað varðar inntak frumvarpsins felur það í sér allt of mikið valdaafsal þingsins. Ráðherra fær almenna heimild til sölu eignarhluta ríkisins í bönkum og sparisjóðum. Engar skorður eru settar um hverjum má selja eignarhlutana og hvort taka eigi sölutilboði sem er undir verðmati á eignarhlut. Ráðherra getur með öðrum orðum ákveðið að selja eignarhlutana á söluverði undir verðmati.

Frú forseti. Þetta er óásættanlegt og gengur gegn meginniðurstöðu þingmannanefndarinnar um að auka þurfi sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þingmannanefndin taldi brýnt að Alþingi tæki starfshætti sína til endurskoðunar og markaði skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framvæmdarvaldsins. Með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna beint í orð þingmannanefndarinnar þar sem þau eiga einkar vel við um þetta frumvarp:

„Alþingi á ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvaldsins og oddvitaræðis.“

Virðulegi forseti. Í gær lagði ég fram tillögu um að vísa þessu máli frá og rökstuddi hana með því að í fyrsta lagi ríkti hér of mikil samþjöppun eða fákeppni á fjármálamarkaði sem skýrir hátt vaxtastig hér á landi samanborið við önnur lönd.

Í öðru lagi skýri ég þessa frávísunartillögu með lágu verði hlutabréfa og þá sérstaklega hlutabréfa í bönkum vegna fjármálakreppunnar og því borgar sig fyrir skattgreiðendur að bíða með söluna.

Í þriðja lagi rökstyð ég frávísunartillöguna með því að hætta sé á að vogunarsjóðir, sem reyndar eru hrægammasjóðir, kaupi hlut ríkisins í bönkum og sparisjóðum.

Virðulegi forseti. Ég mun nú gera nánari grein fyrir þessum þrennum rökum fyrir frávísunartillögu minni.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins mælist samþjöppun á bankamarkaði vera tæp 2.700 stig eftir samruna Landsbankans og SpKef. Fram að hruni var þessi samþjöppunarstuðull undir 2.000 stigum, en almennt er hann ekki nema 1.800 stig. Samþjöppun vísar hér til markaðshlutdeildar banka og sparisjóða í innlánum. Þetta þýðir með öðrum orðum að samþjöppun, eða það sem hagfræðingar kalla fákeppni, er meiri hér á fjármálamarkaði en nokkurs staðar annars staðar. Sala á eignarhlutum ríkisins mun ekki breyta því að viðskiptabankarnir þrír eru með um 98% af innlánum og sparisjóðirnir nú aðeins með um 2%. Fjölbreyttari eigendahópur eykur ekki samkeppni á fjármálamarkaði eins og meiri hluti hv. fjárlaganefndar fullyrðir í nefndaráliti sínu.

Bankar sem búa við mikla samþjöppun eða fákeppni geta krafist mun hærri vaxta á útlánum sínum og hærri þjónustugjalda en bankar á samkeppnismarkaði. Stjórnmálaflokkar sem vilja tryggja að fákeppnishagnaðurinn renni í vasa almennings í gegnum arðgreiðslur og lægra vaxtastig berjast fyrir því að ráðandi bankar eða banki séu í almannaeigu eða eigu viðskiptavina sinna. Þar er ég að vísa í sparisjóðina. Búið er að afhenda nýju viðskiptabönkunum perlur sparisjóðakerfisins. Enn frekari einkavæðing bankanna mun veita vogunarsjóðum óhindraðan aðgang að eigum skuldsettra heimila og fyrirtækja í gegnum hátt vaxtastig og verðtrygginguna.

Komið hefur fram við umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd að lítill áhugi sé nú meðal fjárfesta á að eignast hlut í banka vegna fjármálakreppunnar. Verð á hlutabréfum banka er því eins og ástandið er í dag mjög lágt. Líkur eru á því að vogunarsjóðir, sem eru nú með eigur sínar lokaðar inni í hagkerfinu vegna gjaldeyrishaftanna, séu þeir einu sem hafi áhuga á að kaupa eignarhluti ríkisins í bönkum og sparisjóðum. Ástæðan er sú að eignarhald á fjármálafyrirtæki auðveldar þeim að sniðganga gjaldeyrishöftin.

Virðulegi forseti. Það er ekkert í frumvarpinu sem bannar ráðherra að selja vogunarsjóðum eignarhluti ríkisins og það er virkilega ámælisvert.

Eitt af því sem einkennir viðskiptabanka er að eigendur þeirra geta tekið mikla áhættu án þess að þurfa sjálfir að taka á sig kostnaðinn ef illa fer. Þetta vandamál kalla hagfræðingar freistnivandann.

Um 80% krafna í þrotabú gömlu bankanna hafa gengið kaupum og sölum eftir fall þeirra og eru nú í eigu vogunarsjóða. Það sem einkennir hrægammasjóði er kaup þeirra á erlendum kröfum, eins og t.d. kröfum í þrotabú Glitnis og Kaupþings banka, eða uppkaup á skuldabréfum ríkissjóðs, eins og t.d. grískra skuldabréfa, sem upphaflegir lánveitendur eða eigendur eru sannfærðir um að lítið sem ekkert fáist upp í. Með öðrum orðum, hrægammasjóðir eru verðbréfasjóðir eða vogunarsjóðir sem sérhæfa sig í uppkaupum á verðlitlum kröfum gjaldþrota fyrirtækja eins og gömlu bankanna og ríkissjóða í greiðsluerfiðleikum.

Frú forseti. Mér skilst að hrægammasjóðirnir sem eiga stóran hluta krafna í Glitni og Kaupþingi hafi jafnframt hafið uppkaup á bréfum sem Íbúðalánasjóður hefur gefið út vegna þess að þeir álíta að þau bréf séu ríkistryggð.

Hrægammasjóðir ráðast á umkomulaus fórnarlömb meðan hrægammarnir sem þeir eru kenndir við láta ekki til skarar skríða fyrr en bráðin er dauð. Sem dæmi um þetta voru hrægammasjóðirnir eða vogunarsjóðirnir komnir inn í hagkerfið áður en gömlu bankarnir féllu og hafa aukið eignasafn sitt til muna á þeim fjórum árum sem liðin eru frá bankahruni. Arion banki og Íslandsbanki eru nú þegar í meirihlutaeigu hrægammasjóða. Markmið vogunarsjóða eða hrægammasjóða er að innleysa eign sína sem fyrst með sem mestum hagnaði án tillits til afleiðinganna fyrir aðra. Vogunarsjóðir sem gera út á áhættu munu því ekki hika við að taka ákvarðanir sem krefjast þess að stjórnvöld grípi inn í ef illa fer til að varna bankahruni eða til að lágmarka skaðann af bankahruni eins og gert var hér haustið 2008. Eignarhald vogunarsjóða á bönkum ógnar því fjármálastöðugleika landsins, frú forseti.

Raunverulegir eigendur vogunarsjóða eða hrægammasjóða reyna yfirleitt að fela slóð sína með því að stofna einkahlutafélög sem eiga í eignarhaldsfélagi með aðsetur í skattaskjóli. Slíkt falið eignarhald er nauðsynlegt að afnema með öllu áður en til sölu eignarhluta ríkisins í bönkum og sparisjóðum kemur. Ég hef reyndar lagt til að við afnemum falið eignarhald með því að gera breytingartillögu við frumvarp um ársreikninga þar sem fyrirtækjum er gert skylt að upplýsa um raunverulega eigendur fyrirtækjanna. Þá komast fjármálafyrirtæki eins og Straumur fjárfestingabanki ekki upp með að gefa bara upplýsingar um eiganda eins og ALMC án þess að með fylgi upplýsingar um hverjir eiga ALMC. Við erum engu nær að vita að Straumur fjárfestingabanki er í eigu ALMC. Nafnið ALMC eitt og sér segir okkur ekki neitt um eignarhaldið á Straumi fjárfestingabanka.

Það þarf auk þess að herða reglur um hæfi eigenda fjármálafyrirtækja þannig að vogunarsjóðir geti ekki orðið eigendur þeirra. Jafnvel þarf að banna eignarhald vogunarsjóða á fjármálafyrirtækjum.

Frú forseti. Ég vil geta þess að ég lét starfsmann Alþingis hafa samband við kollega sína á Norðurlöndum til þess að komast að því hvort eignarhald vogunarsjóða eða hrægammasjóða væri leyft á Norðurlöndunum. Kollegar okkar á Norðurlöndunum vissu ekki um hvað var verið að tala, sem segir mér að þetta er ekki vandamál sem hefur komið upp annars staðar á Norðurlöndunum, alla vega ekki í sama mæli og hér á landi.

Þær breytingar sem þarf að gera til að tryggja að við vitum hverjir eiga banka, vogunarsjóði eða hrægammasjóði, og til að koma í veg fyrir að slíkir sjóðir eignist fjármálafyrirtæki, hafa ekki verið gerðar eða lagðar til. Ég hef því lagt fram frávísunartillögu við þetta frumvarp þar sem ég tel alls ekki tímabært að selja eignarhluti ríkisins í bönkum og sparisjóðum. Verði frávísunartillaga mín ekki samþykkt, frú forseti, geri ég ráð fyrir því að koma með fjölmargar breytingartillögur við 3. umr., m.a. breytingartillögu sem bannar ráðherra að selja eignarhlut sinn til vogunarsjóða, breytingartillögu sem bannar að sölutilboði sem er undir verðmati á eignarhlutum ríkisins verði tekið, og breytingartillögu sem takmarkar söluheimildina sem hæstv. bankamálaráðherra fær við sölu á eignarhlutum ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að biðla til allra þingmanna og biðja þá um að hafna áhættunni sem felst í þessu frumvarpi vegna þess að þetta er áhætta sem getur ógnað efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.