141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna okkur á þá lærdóma sem draga má af fyrri einkavæðingu bankanna. Aðstæður á fjármálamarkaði og í efnahagslífinu eru allt aðrar í dag en við fyrri einkavæðingu bankakerfisins. Þá voru ekki gjaldeyrishöft og ekki heldur umsvifamiklir vogunarsjóðir til staðar í hagkerfinu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að þær aðstæður sem við búum við í dag geri það að verkum að alls ekki sé tímabært að fara að velta fyrir sér einhverju söluferli.

Jafnframt langar mig til að vita hvort hv. þingmaður muni styðja breytingartillögu þess efnis að vogunarsjóðir séu ekki hæfir eigendur fjármálafyrirtækja til að koma í veg fyrir að þeir geti keypt upp og jafnvel átt banka í gegnum kröfur á þrotabú gömlu bankanna.

Ég vil jafnframt fá að vita hvaða breytingar hv. þingmaður vill sjá á fjármálamarkaði. Hvernig á eignarhaldinu á bönkum og sparisjóðum að vera háttað? Á ríkið að vera svokallaður kjölfestufjárfestir? Hvað þýðir það þá? Hvert á hlutverk sparisjóða að vera á fjármálamarkaði?