141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt. Varðandi fyrri hlutann eru aðstæður í dag töluvert öðruvísi en þær voru við fyrri einkavæðinguna. Segja má að þær aðstæður sem við búum við nú séu að einhverju leyti afleiðing af þeim ákvörðunum sem teknar voru eftir hrunið 2008. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var farið mjög ítarlega í gegnum þá þætti sem menn töldu skipta máli fyrir það sem gerðist í október 2008, í einkavæðingarferlinu. Þar var lögð mjög mikil áhersla á það hvernig staðið var að ákvörðuninni á Alþingi varðandi sölu á bönkunum og eins hvernig ferlið var hjá ráðherrunum eftir það. Ég tel að það hafi verið ein stærstu mistökin sem gerð voru í fyrri einkavæðingunni að Alþingi skyldi gefa svo opna söluheimild sem raun bar vitni. Það var bara ein setning um það í lögunum um sölu á bönkunum. Þeir hefðu að vísu ekki getað gefið bankana en þeir hefðu getað selt þá fyrir krónu því að það voru engin ákvæði eða skilyrði varðandi eigendur, hæfi og annað hvað það varðar.

Ég get síðan tekið undir það að vogunarsjóðir eru ekki hæfir eigendur, að sjálfsögðu ekki, það kom skýrt fram í mati FME. Það hefur líka sýnt sig að með ákveðnu hugmyndaríki er greinilega hægt að fara fram hjá því með því að stofna milliliði eins og Kaupskil, sem fer raunar með eignarhaldið á Arion banka. Síðan þegar búið verður að ganga frá (Forseti hringir.) uppgjöri á gömlu bönkunum, þarf væntanlega enn á ný að fara fram nýtt mat á því hvort það sé nóg að vera með einn millilið eða hvort þeir (Forseti hringir.) þurfa að vera tveir eða þrír.