141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg á hreinu að það tekur aðeins meira en tvær mínútur að svara því hvernig ég sé fyrir mér fjármálamarkaðinn á Íslandi. Það var svo greinilegt í framhaldi af hruninu hvað við sem manneskjur eigum auðvelt með að fara aftur í það sem við þekkjum, í gamla farið. Menn tóku sig til og endurreistu bankana og byggðu að mörgu leyti á sömu hugmyndafræðinni og á sama grunni og verið hafði fyrir hrun.

Ef við gætum byrjað upp á nýtt, eins og hv. þingmaður spurði um, mundi ég gjarnan vilja sjá að ríkið ætti áfram eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Ég mundi vilja sjá einkabanka sem eru virkir, sem eru almennir viðskiptabankar. Ég mundi vilja sjá aðskilnað í einhverju formi á milli viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi og ég mundi gjarnan vilja sjá að við værum með öfluga sparisjóði sem mundu fyrst og fremst byggja á þeirri hugmyndafræði og þeim grunni sem sparisjóðirnir voru stofnaðir á, á grunni samvinnuhugsjónarinnar. Við höfum séð það t.d. í Bretlandi að þar hefur verið mikill vöxtur í því sem kallað er „credit union“. Eins hefur verið mjög áhugaverð þróun í svokallaðri sjálfbærri bankastarfsemi á Norðurlöndunum. Það tengist síðan allt við því hvernig við sjáum fyrir okkur mótun peningastefnunnar hérna, hvort við viljum halda okkur við þetta form áfram, menn hafa bent á að fjármálafyrirtæki geti í sjálfu sér prentað peninga (Forseti hringir.) eins og fyrirkomulagið er núna, eða hvort við viljum takmarka það að einhverju leyti. Stórt er spurt.