141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður velti því fyrir sér í ræðu sinni hvort það væri virkilega svo að enginn væri að gæta almannahagsmuna, það væru allir einhvern veginn tortryggðir. Það kann að hljóma eins og úr munni einfeldnings en ég trúi því nú samt sem áður að í það minnsta hér í þessum sal séu allir að reyna að gæta hagsmuna almennings, hver með sínum hætti. Ég ætla að leyfa mér að ganga út frá því þótt við getum verið ósammála um leiðirnar til þess.

Ég held að það gæti ákveðins misskilnings hjá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur varðandi frumvarpið og megininntak þess. Það fjallar ekki um að verið sé að taka ákvörðun um að selja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Frumvarpið fjallar ekki um að heimila ráðherra að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Sú heimild er til í dag. Það er ekkert sem stoppar það af í dag. Frumvarpið fjallar um að setja því einhverjar lagalegar reglur, lagalegar skyldur og lagalegt ferli ef til þess kemur að það þurfi að selja eða ákvörðun er tekin um að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Því máli vil ég ekki vísa frá. Ég vil að það verði sett í tiltekið lagalegt ferli fyrir kosningar. Ég vil að Alþingi verði búið að taka ákvörðun um hvernig á að fara með slík mál áður en gengið verður til kosninga. Ég vil ekki hafa þetta í þeim umbúnaði, ef einhver er, sem það er í í dag. Um það fjallar þetta mál. Við erum ekki með frumvarpinu og samþykkt þess að taka ákvörðun um að selja einn hlut, alla eða eitthvað þar á milli heldur að setja því einhverja umgjörð ef til þess kemur að eitthvað verði selt.