141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[20:54]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Frumvarp sem ber nafn sem er í raun og veru að mörgu leyti mjög villandi því það mikilvægasta við frumvarpið er ekki að þar sé heimild til þess að selja eignarhluti ríkisins heldur einmitt að þar sé ekki heimild til þess að selja stærsta hlutinn sem ríkisvaldið hefur í fjármálafyrirtækjum á Íslandi í dag sem er stóri hluturinn í Landsbanka Íslands. Það sem ég met mest í þessu frumvarpi er kannski að þarna er fest í lög að það standi ekki til að selja 70% hlut ríkisins í Landsbankanum hf. Það er lykilatriði málsins að mínu mati. Þetta frumvarp fjallar um að það sé heimild til þess að selja allt að 11% hlut í Landsbankanum, allt að 5% hlut í Íslandsbanka og allt að 13% hlut í Arion banka. Síðan getum við velt því fyrir okkur hvort sá rammi og það fyrirkomulag sem er lagt upp með sé nægjanlega traust til þess að við getum verið ánægð með það.

Það hafa verið deildar meiningar í þessari umræðu. Ég skil það að mörgu leyti vel því það er eðlilegt og reyndar alveg nauðsynlegt að við séum full tortryggni þegar kemur að því að velta fyrir sér sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum eftir þá hörmulegu reynslu sem við gengum í gegnum á sínum tíma. Það er mikilvægt að rifja þá sögu upp því við værum ekki í þeirri stöðu sem við erum nú í ef vel hefði verið staðið að einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Það er einhver átakanlegasti vitnisburðurinn um undirlægjuhátt Alþingis hvernig þau mál gengu fram á upphafsárum þessarar aldar en það var á vormánuðum 2001 sem það kom frumvarp frá þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að heimilt væri að selja ráðandi hlut í þessum tveimur bönkum, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hf. Þetta var í kringum 70% hlutur í hvorum banka fyrir sig. Það er athyglisverð tilviljun í ljósi þess frumvarps sem við erum með í höndunum í dag, 68% hlutur í Landsbanka Íslands og 72% í Búnaðarbanka Íslands.

Þegar frumvarpið sem kom frá framkvæmdarvaldinu inn í þingið er rifjað upp er sláandi að það var eingöngu ein efnisgrein sem sagði að heimilt væri að selja hlutafé ríkisins í þessum tveimur bönkum. Það var engin frekari leiðsögn frá framkvæmdarvaldinu um hvernig ætti að standa að þeirri sölu, hver væru markmiðin eða hvaða reglur og rammi ætti að vera utan um söluna.

Til þess að bíta höfuðið af skömminni fór frumvarpið óbreytt í gegnum viðskiptanefnd á þeim tíma sem var undir forustu Vilhjálms Egilssonar, sama manns og hefur lamið á ríkisstjórninni fyrir hin og þessi mál á þessu kjörtímabili sem forsvarsmaður Samtaka atvinnulífsins. Það er makalaust eftir á að hyggja að mönnum skyldi detta í hug að selja þessi ráðandi fyrirtæki fyrir íslenskt samfélag án þess að því fylgdu nokkrar leiðbeiningar eða skilaboð frá löggjafarsamkundunni um hvað ætti þar að ráða för, hvaða prinsipp ættu að ráða för. Það er ekki af því að þau sjónarmið hafi ekki komið fram í umræðunni. Það kom fram frá stjórnarandstöðunni. Ég get nefnt að það voru breytingartillögur frá þingmönnum Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni og Margréti Frímannsdóttur, til dæmis um að það yrði gætt að dreifðri eignaraðild og væri sömuleiðis tryggt að það lægi fyrir staðfesting Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar á að aðstæður á fjármálamarkaði væru með þeim hætti að ráðlegt væri að ráðast í söluna. Sömuleiðis að eingöngu annar bankinn væri seldur en ekki báðir o.s.frv.

Þetta frumvarp sem við erum með fyrir framan okkur er sem betur fer stórum betra en sú hörmung sem boðið var upp á við einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Það sem skiptir mestu máli er það sem kemur fram í 3. gr. um meginreglu við sölumeðferðina þar sem kveðið er á um að áhersla skuli lögð á í fyrsta lagi opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti í þessum bönkum.

Auðvitað skiptir það mjög miklu máli en ég tel afar mikilvægt að ríkisvaldið hafi þetta grundvallaratriði um dreifða eignaraðild að leiðarljósi jafnvel þótt við séum eingöngu með þessa tiltölulega litlu hluti undir. Ég vil beina því til hv. fjárlaganefndar að skoða það atriði sérstaklega milli 2. og 3. umr. sem og þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og tengjast því hverjir það eru sem hugsanlega fá þessa eignarhluti til kaups. Gild sjónarmið sem borin hafa verið fram um vogunarsjóðina sem dæmi í þessari umræðu.

Eitt vil ég nefna að lokum og það er einmitt samhengi við einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Við höfum samþykkt á Alþingi að láta fara fram rannsókn á þeirri einkavæðingu í eitt skipti fyrir öll þannig að öll sú saga liggi fyrir á einum stað. Það tók ansi langan tíma, allt of langan, að koma þeirri tillögu gegnum þingið en það tókst um daginn. Við eigum að fá niðurstöðu þeirrar rannsóknar í hendurnar á hausti komanda, 1. september er dagsetningin sem er nefnd ef ég man rétt. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að við lærum af þeim niðurstöðum sem þar verða dregnar fram. Ég mundi mælast til þess að fjárlaganefnd skoði að bæta inn í frumvarpið ákvæði þess efnis að fjármálaráðherra muni taka frumvarpið til endurskoðunar í samræmi við þær niðurstöður sem munu liggja fyrir í rannsókninni því auðvitað var margítrekað í umræðu um það mál að tilgangurinn með því að Alþingi láti rannsaka einkavæðingu bankanna í eitt skipti fyrir öll þannig að sagan öll sé til á einum stað er ekki einhvers konar sagnfræðileikfimi heldur til að læra af þessari fortíð og tryggja að menn geri ekki sömu mistökin aftur.

Ég fagna því síðan sem kemur fram í breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar að Seðlabanki Íslands verði hafður til ráðslags ef og þegar það þurfi að leita umsagna Seðlabanka Íslands um einstök atriði sem tengjast hugsanlegri sölu, jafnræði bjóðenda, líklegum áhrifum sölu á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða og lausu fé í umferð.

Ég læt þetta duga. Ég endurtek að það mikilvægasta við þetta frumvarp er að það er fest í lög að ekki eigi að selja stærsta hlutinn í Landsbankanum, 70 prósenta hlutinn, en þarna eru mikilvæg skilyrði sem nauðsynlegt er að hafa í huga ef til þess kemur í framtíðinni að þessir litlu hlutir fara á markaðinn.