141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[21:08]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur varðandi fjármálamarkaðinn og mikilvægi þess að við förum sameiginlega í gegnum það hvaða framtíðarsýn við höfum varðandi þann markað. Það er langur vegur frá því að menn hafi mótað þá stefnu með fullnægjandi hætti. Við erum með eigendastefnu ríkisins varðandi fjármálafyrirtæki. Þar er meðal annars talað um mikilvægi þess að vera með dreifða eignaraðild í fjármálafyrirtækjum á markaðnum til framtíðar. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við förum í gegnum þá umræðu og skoðum kosti og galla á mismunandi leiðum hvað varðar uppbyggingu fjármálamarkaðarins á Íslandi. Það verður að viðurkennast, það er bara heiðarlegt að viðurkenna það, að ekki hefur verið unnið mjög mikið í þeirri framtíðarstefnumótun á kjörtímabilinu. Menn hafa þurft að eyða orkunni í að grafa sig út úr kreppunni, þeirri djúpu holu sem við komum okkur í við hrun fjármálakerfisins. Þetta er eitt af því sem við þurfum að gera betur á næstu fjórum árum.