141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[21:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Einkavæðing bankanna á sínum tíma hefur verið hv. þingmanni hugleikin. Hann hefur talað fyrir tillögum um rannsókn á þeirri einkavæðingu og ekki hefur staðið á framsóknarmönnum að sú rannsókn fari fram. Við höfum hins vegar bent á mikilvægi þess að menn rannsökuðu jafnframt seinni einkavæðingu bankanna, þá einkavæðingu sem núverandi ríkisstjórn stóð að.

Reyndar er svolítið sérkennilegt að heyra þann tón hvað eftir annað í málflutningi hv. þingmanns þegar hann gefur í skyn að einkavæðingin sem slík hafi haft allar þær afleiðingar sem bankar á Íslandi urðu fyrir og leiddu af sér. Hv. þingmaður gleymir því kannski að það fór alveg eins fyrir einkabönkunum sem ekki fóru í gegnum þetta ferli. Féll ekki Glitnir fyrstur? Það þarf að líta á fleira en ferlið. Það þarf að líta á hvernig eigendur bankanna fóru með þá, hvort sem þeir keyptu þá af ríkinu eða á hlutabréfamarkaði og söfnuðu saman mörgum smáum eignarhlutum til að ná yfirráðum í bönkunum.

Þar er verulegt áhyggjuefni hvernig síðasta ríkisstjórn fyrir hrun, hrunstjórnin svokallaða, hélt á málum og þó kannski sérstaklega Samfylkingin sem lagði á það áherslu að útrás bankanna yrði ekki heft og hún fengi að vera áfram með höfuðstöðvar á Íslandi.

Meginspurningin til hv. þingmanns snýr að því sem hann nefndi um mikilvægi þess að læra af rannsókninni. Ég held að það hljóti að vera kjarni málsins ef menn rannsaka einkavæðingu bankanna í þriðja sinn að þeir ætli sér loksins að læra eitthvað af niðurstöðunum. Segir það sig ekki nánast sjálft að það sé þeim mun mikilvægara að rannsaka einkavæðinguna þar sem enn er möguleiki á því að lærdómurinn af rannsókninni geti nýst okkur í þeim aðstæðum sem við eru nú í til þess að forðast áframhaldandi mistök? Varla ætlar hv. þingmaður að þræta fyrir það að mistök hafi verið gerð við seinni einkavæðinguna.