141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[21:12]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eru skiptar skoðanir um það hvort ferlið eftir hrun, þegar ríkisvaldið fékk í fangið þessar fjármálastofnanir og þurfti að búa svo um hnútana að í landinu væru starfandi viðskiptabankar, hafi verið eiginleg einkavæðing í sama skilningi og sú einkavæðing sem sannarlega fór fram fyrir rúmum áratug eða svo. Ég hef mínar efasemdir um það, en það er að einhverju leyti túlkunarfræðilegt atriði og skiptir ekki öllu máli.

Meginspurningin er þessi: Réttlætir það ferli sérstaka rannsókn eða ekki? Mitt svar við því er já. Ég tel að það hafi verið svo viðurhlutamikið verkefni í endurreisn samfélagsins að afar mikilvægt sé að velta þar við öllum steinum, skoða hvort pottur hafi verið brotinn, hvort menn hafi gert einhver afdrifarík mistök sem hafi skipt sköpum fyrir íslenskt samfélag og þá þróun sem við höfum orðið vitni að á síðustu árum. Ég segi því alveg skýrt: Ég styð að það fari fram rannsókn á því ferli þó að ég sé ekki endilega þeirrar skoðunar að það sé einkavæðing með sama hætti og sú sem endaði með hruni fjármálakerfisins.

Ég hélt því ekki fram að einkavæðing bankanna væri meginorsökin fyrir hruninu, en ég hef þá bjargföstu sannfæringu að einkavæðing bankanna og það hve illa var staðið að henni, hversu litlar girðingar voru settar upp fyrir eigendur bankanna, hversu gjörsamlega menn litu fram hjá því að það skipti máli að eigendur bankanna væru hæfir til að reka banka, hefðu einhverja reynslu eða þekkingu á bankarekstri, hafi haft heilmikið með það að gera að þeir fóru fram í algjörum blóra við hagsmuni almennings, eins og raun bar vitni. Ég tel að sannarlega hafi það verið áhrifaþáttur þó að orsakirnar hafi sannarlega verið fleiri.