141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[21:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar Kaupþing banki féll var hann gíraður, sem kallað er, 15-sinnum, þ.e. skuldaði 15-falt eigið fé. Royal Bank of Scotland var á sama tíma gíraður 30-falt, tvöfalt meira en Kaupþing, og Danske bank eitthvað svipað. Það má auðvitað telja til fjöldann allan af írskum bönkum og bandarískum sem léku nákvæmlega sama leik og íslensku bankarnir. Þess vegna veldur það mér áhyggjum ef menn ætla ekki að einbeita sér að hinum raunverulega vanda, því hvernig fjármálakerfið, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, hefur verið rekið á undanförnum árum með skelfilegum efnahagslegum afleiðingum, ef menn ætla bara að vera hér í því að reyna að nýta sér efnahagshrunið í pólitískum tilgangi.

Við hljótum að vilja læra af þeirri reynslu sem heimurinn hefur gengið í gegnum á undanförnum árum og reyna að hanna og reka betra fjármálakerfi en staðið hefur verið að til þessa. Þá hlýtur að vera borðleggjandi að áður en við förum í það að selja þann eignarhlut sem ríkið á í bönkunum á mjög óheppilegum tíma, þar sem allar líkur eru á að erlendir vogunarsjóðir kaupi hlutinn, þá hljótum við að vilja byrja á því að rannsaka hvað hefur farið úrskeiðis á undanförnum árum. Við hljótum að vilja, eins og hv. þingmaður nefndi sjálfur, læra af reynslunni. Þess vegna þykir mér það dálítið undarleg forgangsröðun að menn skuli draga lappirnar í að rannsaka seinni einkavæðinguna, eða hvað sem menn vilja kallað það ferli, en ætla hins vegar að troða hér í gegn frumvarpi rétt fyrir jól sem heimilar fjármálaráðherra að selja hlut ríkisins í bönkunum, þó ekki allan hlutinn í Landsbankanum, með nánast engu eftirliti Alþingis. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að mati hv. þingmanns líka.