141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[21:19]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp sem felur í sér mikla áhættu fyrir einstaklinga, heimilin í landinu og fyrirtækin, áhættu sem gæti endað innan mjög skamms tíma með hruni. Það gerist ef eigendur bankanna misnota eignarhald sitt til að sniðganga gjaldeyrishöftin og þurrka upp gjaldeyrisvarasjóðinn okkar, sem gæti leitt til hruns krónunnar, þ.e. ef eigendur bankanna mundu taka þá ákvörðun að hreinsa eignir út úr bönkunum á skömmum tíma með því m.a. að auka innheimtu, hörku og hækka vexti.

Það eru allt of miklir hagsmunir í húfi til að hleypa þessu frumvarpi í gegn á nokkrum dögum rétt fyrir jól. Ég krefst þess, frú forseti, að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fái málið til umfjöllunar áður en það kemur til 3. umr.

Það er mjög mikilvægt að tryggja að ríkið eigi í fjármálafyrirtækjum sem samsvarar hlut eða 50% markaðshlutdeild, þ.e. að eignarhlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum samsvari 50% markaðshlutdeild á fjármálamarkaði. Aðrir geta verið einkaaðilar á fjármálamarkaði varðandi það sem upp á vantar á þessa markaðshlutdeild. Forsenda þess að hér séu einkaaðilar eða bankar í einkaeigu er sú að við afnemum einkarétt banka á peningaprentun í landinu. Það er atriði sem við höfum ekki rætt neitt sérstaklega í tengslum við frumvarpið en það skiptir mjög miklu máli varðandi eignarhaldið.

Í dag er því þannig háttað að bankar prenta peninga með því að gefa út skuldabréf og er andvirði þess skuldabréfs síðan lagt inn á innstæðureikning. Þannig er búið að búa til peninga með skuld. Sú skuldsetning er ótakmörkuð, eins og við sáum hér rétt fyrir hrun, og getur endað með miklum hörmungum fyrir almenning, þ.e. þegar bankar fyllast bjartsýni og vilja njóta góðs af þenslunni sem í gangi er og byrja að lána út í gríð og erg án þess að hafa fengið nægilega góð veð eða lána jafnvel einstaklingum sem ekki hafa greiðslugetu til að greiða af lánunum.

Við þurfum að breyta bankakerfinu, ekki bara eignarhaldinu heldur bankakerfinu líka þannig að við aðskiljum peningaprentun frá venjulegri bankastarfsemi. Það gerum við með því að setja ákvæði í lög um fjármálafyrirtæki þess efnis að viðskiptabankar, hvort sem þeir eru í eigu einkaaðila eða ríkisins, megi aðeins lána út sem nemur upphæð innlána á bundnum reikningum. Almenningur heldur áfram að leggja reiðufé sitt inn í bankana, en bankarnir færa það strax yfir á bankareikning sinn hjá Seðlabankanum. Með því að taka innlán, sem er ígildi reiðufjár, út úr viðskiptabönkunum eyðum við hættunni á áhlaupi á banka vegna þess að áhlaup felst fyrst og fremst í því að fólk vill ná í reiðufé sitt þar sem það getur ekki tekið út af bundnum reikningum. Þegar innlán, sem eru ígildi reiðufjár, eru hjá Seðlabanka sem er með ríkisábyrgð er eiginlega engin hætta á því að fólk hlaupi til þegar einhver óveðursský hrannast upp og taki peningana sína út. Eins og við vitum verða ríkissjóðir aldrei gjaldþrota heldur lenda þeir bara í greiðsluerfiðleikum.

Með því að aðskilja peningaprentun frá venjulegri bankastarfsemi, komum við í veg fyrir að það séu fyrst og fremst bankar sem hagnast af aukningu peningamagns. Það verða ríkissjóður og skattgreiðendur sem hagnast á því að gefa þarf út á hverju ári aukið peningamagn til þess að tryggja hagvöxt. Það eru þá peningar sem Seðlabankinn prentar með útgáfu skuldabréfs. Seðlabankinn getur með hjálp ríkisstjórna og meiri hluta þingmanna á þingi jafnframt tekið ákvörðun um í hvað eigi að setja þessa viðbótarpeninga sem tryggja eiga hagvöxt. Hann getur tekið ákvörðun um að setja á peninga í langtímafjárfestingar, en ef peningaprentunin færi fram í viðskiptabönkunum mundu viðskiptabankarnir beina þeim fyrst og fremst til þeirra aðila sem von er á að færi bönkunum sem mestan skammtímahagnað, eða t.d. aðila sem fjárfesta í bólueignum.

Aðskilnaður peningaprentunar og bankastarfsemi tryggir jafnframt að við búum við minni efnahagssveiflur en við höfum gert vegna þess að við komum upp svokallaðri peningamagnsnefnd, sem er nefnd sérfræðinga og jafnvel fulltrúa almennings sem tekur ákvörðun um þörfina á að auka peningamagnið í umferð. Sú nefnd notar auðvitað spár um hagvöxt til að meta hvað þarf að auka peningamagnið mikið á hverju ári. Jafnframt notar hún efnahagsstefnu lýðræðislega kjörinna fulltrúa til að taka ákvörðun um peningamagnið í umferð.

Gera þarf miklar breytingar á fjármálakerfinu sem við búum við en því miður er því þannig farið að stjórnmálamenn óttast meira mistök sem þeir geta gert með því að fara út í breytingar en þeir þrá að njóta góðs af ávinningi breytinganna. Það er ein ástæða fyrir því að afskaplega lítið breytist þrátt fyrir mikil áföll. Það höfum við séð eftir bankahrunið 2008. Breytingar eru litlar og taka langan tíma.

Ástandið, ekki bara á Íslandi heldur líka í Evrópu, er alvarlegt. Það er mikið ójafnvægi milli skulda heimila og fyrirtækja og greiðslugetu þeirra, ójafnvægi sem ýtt hefur mörgum heimilum og fyrirtækjum að bjargbrúninni. Fólk er svo illa statt að það sendir okkur þingmönnum beiðni um að koma í veg fyrir allar gjaldskrárhækkanir og skattahækkanir vegna þess að það geti ekki tekið á sig þyngri byrðar en nú þegar hafa verið lagðar á það.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Það er von mín að þessu frumvarpi verði vísað frá á morgun.