141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru fleiri fordæmi um skaðleysi en í lögunum um rannsóknarnefnd Alþingis. Nokkur eru rakin í nefndaráliti 1. minni hluta frá 14. desember. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þar er fjallað um alþingismenn sem njóta ákveðinnar friðhelgi hér með sitt talaða orð úr þessum góða stól hér. Er vísað til laga um dómara en einnig er vísað til laga um umboðsmann Alþingis. Í framhaldsnefndaráliti er áréttað að þar sé í rauninni að finna helstu samsvörunina sem hægt sé að líta til þegar menn ræða nauðsyn þess að setja einhver slík ákvæði í lögin um rannsóknarnefndir.

Ég vil aðeins árétta að með þeim breytingartillögum sem þegar liggja fyrir — ég útiloka ekki að fleiri breytingartillögur komi frá nefndinni milli 2. og 3. umr. — er gildissviðið þrengt verulega. Þannig er rannsóknarnefndarmönnum ætlað að ábyrgjast orð sín, standa ábyrgir orða sinna, annarra en þeirra sem skrifuð eru niður í endanlegar skýrslur, hlutaskýrslur eða áfangaskýrslur. Má ætla að menn sem veljast til þeirra starfa eins og upp er lagt með vandi framsetningu sína í skýrslum af því tagi.

Hér er rakið að markmiðið með skaðleysisákvæðinu er tvíþætt, þ.e. að tryggja vernd nefndarmanna og hlutleysi þeirra en einnig að koma í veg fyrir að þess verði freistað að hafa áhrif á rannsóknir eða tefja hana með sífelldum málarekstri á hendur mönnum.

Í þriðja lagi er rétt að árétta að menn telja nauðsynlegt að setja ákvæði sem þetta til þess að menn fáist yfir höfuð til þess að taka að sér störf sem (Forseti hringir.) þessi, sem eru tímabundin og menn fara í úr öðrum störfum sínum.