141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið.

Önnur nefndin, sú sem fjallaði um hin almennu vörugjöld, skilaði einfaldlega af sér nokkrum tillögum til úrbóta til að auka á samræmi sem eru bara hluti af hinu eiginlega frumvarpi og koma ekki fram í breytingartillögunum við þessa umræðu. Ég held að þær séu til bóta. Ég deili síðan því sjónarmiði með þingmanninum og mörgum öðrum að það væri auðvitað ávinningur að því að grisja nokkuð þennan skóg sem eru vörugjöldin í landinu. Það er hins vegar þannig að það verður ekki gert nema á tímabili þegar ríkissjóður er í færum til þess að gefa eftir tekjur vegna þess að bara ákvörðun eins og sú að taka gjaldið af sjónvarpsskjánum svo þeir sæti ekki vörugjöldum eins og tölvuskjáirnir er ákvörðun sem kostar 300 milljónir.

Við sem þekkjum til stöðu ríkisfjármála, og það gerir hv. þingmaður mjög vel, vitum auðvitað að þær aðstæður eru því miður ekki uppi núna. Ég held hins vegar að menn geti nýtt tímann til þess að gera einhvers konar áætlun til lengri tíma um það hvaða áfanga væri æskilegt að ráðast í og hvað hver og einn þeirra muni kosta ríkissjóð þannig að málin séu til undirbúin þegar svigrúm skapast á ný þegar efnahagurinn hér fer að batna enn frekar, sem og hagur fólks og fyrirtækja í landinu.