141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru margar spurningar á lofti.

Fyrst um framlagningu frumvarpa. Við höfum nú sem betur fer gert þá breytingu á þingskapalögum að tekjufrumvörpin eiga að fylgja fjárlögunum við framlagningu hér í september frá og með næsta hausti þannig að þessum vinnubrögðum sem þingmaðurinn lýsir ágætlega er lokið.

Því sem varðar að breyta heldur virðisaukaskattsþrepunum er hægt að lýsa þannig fyrir hv. þingmanni að ef menn ætluðu að falla frá vörugjöldunum í matvörunni, og kannski einhverjum öðrum vörugjöldum, og samræma vaskþrepin þyrfti hið nýja vaskþrep að vera einhvers staðar á bilinu 23–25% reikna ég með, þ.e. bara það að sameina vaskþrepin mundi þýða að eitt vaskþrep yrði svona 21%. Það sem menn ætluðu að gefa eftir í vörugjöldum yrðu þeir þá að bæta sér upp með því að hækka þetta 21% í 22–25% eftir því hversu langt þeir ætla að ganga í vörugjöldunum.

Ég held að það sjái hver maður í hendi sér að þótt það væri bara 21%, lægsta talan sem ég nefni hér, væri svo stór hækkun á þeim matvörum og öðrum hlutum sem eru í neðsta þrepinu auðvitað eitthvað sem væri á engan hátt hægt að bjóða heimilum í landinu upp á við núverandi aðstæður. Annar möguleiki hefði náttúrlega verið að hækka lægra þrepið til að taka inn þessa tekjuaukningu og halda áfram vörugjöldunum eða að sleppa þeim og hækka neðra þrepið fyrir því öllu, en það hefði auðvitað falið í sér verulega hækkun á neðra þrepinu og nokkurra prósenta hækkun á allri matvöru í landinu, heitu vatni og fjölmörgum öðrum nauðsynjavörum. Ég held að það hafi ekki verið góður kostur sem SA var þar að benda á.