141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er frekar dapurt að þurfa að fylgjast með framgangi þessara mála. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Helgi Hjörvar fóru ágætlega yfir aðdraganda málsins og vinnubrögðin. Við erum alltaf í þeirri stöðu að á elleftu stundu er verið að koma fram með mál sem eru mjög illa unnin.

Þetta mál er sýnikennsla á því af hverju þetta kerfi er svona flókið. Nú er það alveg ljóst öllum sem eru búnir að fara í gegnum þetta mál að menn voru ekkert að hugsa um manneldismarkmið, menn voru ekkert að hugsa um einföldun, menn voru bara að hugsa um að hækka skatta. Til þess að setja þetta í einhvern betri búning leggja þeir af stað og lýsa því yfir að þetta séu manneldismarkmið og sömuleiðis einhver einföldun á kerfinu og hvort tveggja er bara blásið af borðinu. Hefði ekki verið hreinna, virðulegi forseti, ég vil spyrja hv. þingmann að því, að finna leið strax til að hækka þetta? Núna erum við búin að flækja þetta enn frekar. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það í ræðu sinni hvernig þessi mál hafa þróast og allt satt og rétt sem kom fram hjá honum. Í hvert skipti sem við mætum og göngum frá einhverju eins og þessu þá flækjum við það aðeins meira. Þegar menn ætla að einfalda þetta verður það alltaf erfiðara. Auðvitað var kjörið tækifæri og kannski besta tækifæri Íslandssögunnar í upphafi þessa kjörtímabils til að gera einhverja alvöru einföldun, en það var ekki nýtt. Hefði ekki verið miklu betra að hækka bara skattinn? Þá hefði þetta alla vega ekki orðið svona (Forseti hringir.) rosalega flókið.