141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:46]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég svari skýrt fyrri spurningu hv. þingmanns, um það hver er ástæðan fyrir því að meiri hlutinn tekst ekki á við það verkefni að stíga fullnægjandi skref í þessa átt, er hún einfaldlega sú að ég held að verkefnið sé svo miklu stærra og verðskuldi miklu meiri tíma en við höfum til stefnu til að vinna að aðgerðum sem mundu raunverulega skipta máli varðandi manneldissjónarmið. Ég held að það sé verkefni sem við þurfum að fara í, fara heildstætt yfir sviðið og skoða ekki bara sykurinn heldur líka fitu og ýmsa aðra matvöru sem veldur offitu í samfélagi okkar og koma fram með heildstætt þingmál sem hefur þau jákvæðu áhrif sem við vitum að við verðum að innleiða í okkar samfélagi. Þetta er ekki frumvarp sem nær þeim markmiðum og eðlilegt að viðurkenna það, en við þurfum að fara í þessa vinnu. Vonandi getum við náð góðu samstarfi þvert á flokka um að koma fram með tillögur innan tíðar sem geta skipt raunverulegu máli í baráttunni við offituna.