141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

skattar og gjöld.

101. mál
[23:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða eitt af þeim málum sem koma hingað á elleftu stundu, og við höfum kannski ekki haft þann tíma til að skoða það sem við hefðum viljað — ekki kannski, við höfum bara ekki haft tíma.

Það er og var hins vegar augljóst í meðförum nefndarinnar að það mun þykja umdeilt, þ.e. sá þáttur sem snýr að því að þeir sem fengu vaxtabætur fyrir endurreikning á vexti, sem þeir hafa síðan ekki þurft að greiða en fengið endurgreitt, munu ekki þurfa að greiða til baka þær vaxtabætur sem þeir fengu úr ríkissjóði. Mun mörgum þykja það örugglega súrt í broti í ljósi þess að nú er gengið hart eftir því að þegar fólk fær almennt bætur, t.d. bætur almannatrygginga, hvort sem það eru öryrkjar, eldri borgarar eða aðrir slíkir, þá þarf það að greiða þær bætur til baka, ofgreiddar bætur. En í þessu tilfelli erum við að taka eina tegund bóta, vaxtabætur, og þær ofgreiddu bætur þarf ekki að endurgreiða.

Virðulegi forseti. Ég hefði kosið að við hefðum haft tækifæri til að fara betur yfir þennan þátt málsins, þótt ýmislegt annað mætti taka til í tengslum við það, en ég held að þetta sé það sem mun verða mesti kurrinn um.