141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[10:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Málið sem hér liggur fyrir er töluvert breytt frá því frumvarpi til upplýsingalaga sem fyrst kom í þingið fyrir rúmum tveimur árum. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á þeim tíma hafa í meginatriðum verið til bóta. Það voru nokkur atriði sem ég hafði töluverðar áhyggjur af í upphafi og hef haft á meðan á nefndarstarfinu hefur staðið, m.a. um vinnugögn stjórnvalda og skilgreiningar í þeim efnum. Þar hafa verið gerðar lagfæringar sem ég held að komið sé til móts við þau sjónarmið sem ég hef haft uppi í málinu.

Fleiri álitamál eru vissulega enn fyrir hendi í málinu og kannski er það með sum þeirra að ekki verður úr því skorið fyrr en með reynslunni hvernig þau munu reynast í framkvæmd. Ég hef áhyggjur af því að sum af þeim ákvæðum sem koma þarna inn og eru nýmæli (Forseti hringir.) verði ekki mjög virk í framkvæmd, en í ljósi þess að málið hefur batnað tel ég ástæðu til að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.