141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[10:20]
Horfa

Róbert Marshall (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er verið að breyta upplýsingalögunum á betri veg í nokkrum veigamiklum atriðum. Verið er að breyta hinni svokölluðu tilgreiningarreglu sem skiptir mjög miklu máli þegar kemur að aðgengi borgara, fjölmiðlamanna að upplýsingum í fórum hins opinbera. Verið er að auka aðgengi að fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélaga, auka aðgengi að upplýsingum um launakjör opinberra starfsmanna og aðstöðu stjórnenda og búið að bæta til muna skilgreininguna á vinnugögnum. Málið hefur verið unnið töluvert hér í þinginu, það hefur farið í gegnum miklar breytingar frá því sem fyrst var og er til fyrirmyndar að því leyti að hér lagði fyrst hv. allsherjarnefnd og svo hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mikla vinnu í að gera það að enn betra máli. Við eigum að vera stolt af því að samþykkja þessi lög. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)