141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[10:28]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ótrúlegt að setja málið þannig upp að það snúist um kjör sjúklinga á spítölum landsins. Sjúkratryggingar voru stofnaðar um ákveðið verkefni og því hefur ekki verið breytt. Hér er um það að ræða að bíða með að fara í kaup og sölu í sambandi við þjónustu á ríkisspítölum annars vegar og í einkageiranum hins vegar. Það er ekkert verið að velta því á heilbrigðiskerfið í augnablikinu. Hins vegar er verið að fresta gildistökunni, og það kemur ágætlega fram í frumvarpinu, vegna þess að unnið er að yfirfærslu á málefnum aldraðra til sveitarfélaga. Áður en gengið verður frá þeim samningum sérstaklega, áður en farið verður að semja við einstakar stofnanir, þarf að ná samkomulagi um gæðakröfur og viðmið sem sveitarfélögin eru aðilar að ásamt ríkinu. Þess vegna er frestunin eðlileg og óskað hefur verið eftir því að hafa það til lengri tíma í byrjun. Það hefur verið ósk einstakra þingmanna, meðal annars hv. þm. Guðlaugs Þór Þórðarsonar, að taka alltaf ár í einu. Það er kannski skýringin á því að frumvarpið kemur árlega inn í þingið.