141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er afar mikilvægt mál á ferðinni sem fjallar um það hvernig við ætlum að standa að sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það sem er mikilvægt í þessu máli er að það er verið að lögfesta stefnu þessarar ríkisstjórnar um að eiga áfram að minnsta kosti 70% í Landsbanka Íslands.

Síðan er verið að leggja til söluferli sem tryggir jafnræði, gagnsæi og mjög skýra og sterka aðkomu Alþingis að öllu söluferlinu. Alþingi er ætlað stórt hlutverk ef til kemur sala á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og er það vel.

Ég held að við höfum dýra lexíu að læra af með hvaða hætti staðið hefur verið að sölu banka hér á landi í fortíðinni. Það ætlum við ekki að láta gerast aftur og þess vegna er þetta mál mikilvægt. Ég tel að það marki ákveðin tímamót takist okkur að ljúka þessu máli hér í dag.