141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég held að það skipti mjög miklu máli að menn átti sig á því hvað þetta frumvarp snýst um. Það segir hérna alveg mjög skýrt að verið sé að heimila ráðherra að selja eignarhlutina, ekki bara í sparisjóðunum eins og heimild er núna fyrir í fjárlögum heldur að selja bankana, Arion, Íslandsbanka og hluta Landsbankans. Þannig er það bara og þá hefur hæstv. ráðherra algjöra heimild til þess. (Gripið fram í.) Þetta getur hver og einn lesið í frumvarpinu.

Það var áhugavert að hlusta í gær á vinstri græna tala fyrir því að selja bankana og mikilvægi kjölfestufjárfesta, en látum það liggja á milli hluta. Af því að menn tala iðulega um aðra einkavæðingu þá var upplýst í nefndinni í morgun, það er eiginlega ekkert búið að fjalla um þetta þó að við hefðum átt að gera það, að á sínum tíma þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru seldir var verðið 160–170 aurar á hverja bókfærða krónu. Nú eru menn að tala um að selja bankana á 60–70 aura (Forseti hringir.) á hverja bókfærða krónu. Ef menn gáfu bankana á sínum tíma veit ég ekki hvað það kallast í dag.