141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:45]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að árétta að hér er um að ræða frumvarp um regluverk fyrir mögulegt söluferli sem á að byggjast á gegnsæi og jafnræði með hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi. Slíkt regluverk skortir og því skiptir máli að þingið afgreiði málið.

Fjárlaganefnd tók málið til umræðu í morgun í framhaldi af þeirri umræðu sem fór hér fram í gær og hefur áréttað það í tillögum sínum að breyta nafni frumvarpsins í takt við það sem hefur verið sagt og kom skýrt fram í umræðunni í gær. Við erum að horfa til söluferlis og regluverks í kringum það og jafnframt að setja inn í bráðabirgðaákvæði að horft verði til þess við yfirferð og endurskoðun á regluverkinu þegar niðurstaða liggur fyrir úr þeirri úttekt og rannsókn sem Alþingi hefur samþykkt að fari fram á einkavæðingu bankanna frá fyrri tíð.