141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmenn sem telja að hér sé bara um sölumeðferð að ræða að lesa frumvarpið. Í 1. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eftirtalda eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum …“ — Síðan eru þeir tilgreindir.

Í ákvæði til bráðabirgða segir:

„Ákvæði laga þessara gilda ekki um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í sparisjóðum sem þegar er hafin við gildistöku laganna með ákvörðun ráðherra …“

Meginefni frumvarpsins, þá er ég að vísa í athugasemdirnar, þar segir:

„Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þessi:

1. Ráðherra er heimilt að selja að öllu leyti eða að hluta eignarhluti ríkisins í Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og sparisjóðum, og í Landsbankanum hf. að því marki að eignarhlutur ríkisins nemi aldrei minna en 70% af heildarhlutafé Landsbankans hf.“

Þetta er heimild til að selja. Þetta snýst ekki um sölumeðferð ef menn taka ákvörðun um að selja, þetta er heimild til ráðherrans um að selja bankana. Ef þetta er allt fullkominn misskilningur þurfa menn að skrifa frumvarpið upp aftur (Forseti hringir.) eða koma með breytingartillögu. Þetta er ekkert flókið.