141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:54]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það má segja að heiti þessa frumvarps sé að einhverju leyti villandi því að það mikilvægasta við frumvarpið er að það snýst um að festa í lög að ekki eigi að selja stærsta hlut ríkisins í Landsbanka Íslands. Ríkisvaldið ætlar áfram að eiga 70% hlut í Landsbankanum og er afar mikilvæg yfirlýsing að binda það í lög.

Hins vegar veitir frumvarpið ramma til þess að selja litla eignarhluti, 5–13% í viðskiptabönkunum þremur, og setur ramma utan um það hvaða meginreglur eigi að gilda við þá sölumeðferð. Ég kynnti þau sjónarmið hér í umræðunni í gær og sagði að það væri mikilvægt að nefndin færi vel í gegnum sjónarmið um dreifða eignaraðild, hámarkshlut eigenda í einstökum fyrirtækjum og ekki síst að við lærðum af reynslunni af einkavæðingu bankanna sem var svo afdrifarík á sínum tíma. Rannsóknarnefnd hefur verið sett og hún mun starfa fram á haustið og skila niðurstöðum fyrir 1. september. Það er lykilatriði að við tökum mark á þeim (Forseti hringir.) niðurstöðum sem þá koma fram og notum þær til að endurskoða þessi lög.