141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér finnst umræða stjórnarliða bera þess merki að þeir hafi ekkert lært. Þeir hafa sjálfir minnt á rannsóknarnefndina sem skipuð var um einkavæðingu þriggja banka í nefndarálitum og við umræðuna, síðast hv. þm. Skúli Helgason. Í nefndaráliti meiri hlutans segir að þegar niðurstöður rannsóknarnefndarinnar liggi fyrir væri ekki ólíklegt að draga mætti nokkurn lærdóm af niðurstöðu þeirrar rannsóknar.

Af hverju í ósköpunum eru menn að flýta sér? Hér segir hæstv. fjármálaráðherra að það standi ekki til að selja eignarhluti í bönkunum núna eða á næstu árum. Hv. formaður fjárlaganefndar segir að það séu heimildir í fjárlögum til að gera það, þar eru engar heimildir nema til að selja sparisjóði, engar til að selja hluti í bönkunum, en frumvarpið gengur út á að selja og í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 4 milljörðum af sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, 4 milljörðum af tekjuhlutanum. Það kom fram í umræðum í fjárlaganefnd að gert væri ráð fyrir því að þær tekjur kæmu af sölu eignarhlutar í Landsbankanum.